Lífið í Stanfjord

Monday, August 14, 2006

San Fran og skóli

Reyndum að týna okkur ekki alveg í lestri og vitleysu um helgina og fórum því til San Francisco á sunnudaginn. Var það jómfrúarferð fyrir flesta Stanfjordbúa, ef ekki alla nema Boddí. Brekkur borgarinnar náðu auðvitað að heilla mannskapinn og líka stemmningin almennt. Það var hins vegar eitthvað allt annað veðurfar (áttum við ekki annars alveg eftir að tala um veðrið...) í gangi inni í borginni en hér hjá okkur í Stanford. En hér í Stanford búum við auðvitað við logn, hita og sól alla daga : )
Skólinn byrjaði svo aftur með stæl í dag. Morgunmatur með prófessorum og kennaraliðinu. Held við séum búin að þurfa að standa upp og kynna okkur u.þ.b. þrisvar á dag frá því skólinn byrjaði, og engin undantekning á því í morgun. Kaninn er soldið fyrir þetta. Viðar nær einhvern veginn alltaf að lauma einhverjum setningum inn í kynningarnar hjá sér þannig að liðið missir sig af hlátri, sem er gott.
Kennaraliðið og samnemendurnir eru mikið að velta því fyrir sér hvernig orðið "Borghildur" er borið fram. Sumir segjast æfa sig heima á kvöldin. Ég gafst aðeins upp í dag og sagði nokkrum félögum að þeir mættu bara kalla mig "Hilda", þá var minn maður ekki lengi að blanda sér í málið og benti þeim á að hann kallaði mig iðulega "Body"... Ég held að þeir haldi að við séum snarbiluð!!! Þú útskýrir það ekkert að Boddí og Body sé ekki það sama.
Börnin byrja ekki í skólanum fyrr en á mánudaginn. Til þess að það takist þurfa þau hins vegar að gangast undir bólusetningu og berklapróf sem aðeins má framkvæma í US. Þannig að við erum enn í stöðugum útréttingum - þetta virðist endalaust!!!
Arnhildur Anna er þó búin að fá að vita að hún fer í Gunn High School sem er víst skóli á einhverjum Olympíumælikvarða.
Amma Hildur er í feiknafjöri, smurði nesti oní alla yngri kynslóðina í dag og hélt í lautarferð hér á Campus. Viðar vill endilega skvera henni undir stýri og gera hana að soccer-grandma. Veit ekki alveg hvort hún er til í að keyra 50 cent...


BE

3 Comments:

At 7:23 AM, Anonymous Anonymous said...

Hæ hæ. Frábært að lesa "bloggið" ykkar. Það er ekki laust við að maður öfundi ykkur af þessu ævintýri öllu saman. Haldið áfram að vera svona dugleg að skrifa og setja inn myndir. Ég verð reglulegur áskrifandi að efninu.

Með kveðjum úr Firðinum þar sem loksins er sól og sumar.

 
At 6:30 PM, Anonymous Anonymous said...

Endilega skverið Ömmunni undir stýri ;)

Gaman að heyra frá ykkur :)

 
At 5:53 AM, Anonymous Anonymous said...

Elsku fjölskylda!
Þakka ykkur skemmtilegt bréf
og yndislegar myndir.
Það er gaman og gott að fylgjast
svona með ykkur öllum.
Guð geymi ykkur öll.
Kveðja,
Mamma á Sel.

 

Post a Comment

<< Home