Lífið í Stanfjord

Wednesday, January 31, 2007

Hundraðasti skóladagurinn í uppsiglingu

Í næstu viku rennur upp hundraðasti skóladagur barnanna hér í Kaliforníu. Í tilefni af hundraðasta skóladegi þessa skólaárs verður mikið um hátíðahöld. Við útvegum 100 stk. af hinu og þessu og amma Hildur verður sjálfboðaliði á sjálfum hátíðardeginum. Börnin auðvitað spennt og finnst þetta stórmerkilegur viðburður. Skólinn gengur að öðru leyti sinn vanagang jafnt hjá stórum sem smáum. Arnhildur Anna er auðvitað í essinu sínu heima á Íslandi. Smelli inn nokkrum myndum frá helstu uppákomum janúarmánaðar.
Boddí.

Þetta eru aðalgæjarnir í Stanford - Viðar Snær, Halldór Andri, Atli, Valur Björn og Viddi Lú.
Feðurnir að kenna sonunum elsta bissnesstrikkið í sögunni, límonaðisölu!!!

Matarboð hjá Charlotte og Rutger (von Netherlands). Þau eru hress.


Þetta málverk gaf mamma Mariu Esmeröldu, vinkonu minnar frá Paraguy, okkur. Myndin, sem er af ótilgreindum fossi á Íslandi, er máluð af mömmu Mariu sem er þekktur listmálari í heimalandi sínu. Hún hefur einu sinni komið til Íslands, á þeim tíma sem pabbi Mariu var utanríkisráðherra Paraguy.


Það er fallegt í Lake Tahoe, en kalt var þar!

Hjónin og litlu gormarnir dúðuð í frostinu - þess má geta að NorthFace kom sterk inn.

Friday, January 12, 2007

Ég hlaut Kal í Forníu.

Þá er jólafríið búið og þrælabúðirnar teknar við aftur. Jólafríið fór meðal annars í að taka á móti Grími svila mínum, kaupa munntóbak fyrir hann og hlusta á nýja áramótheitið hans. Nýja áramótaheitið hans er enn verra en það gamla, því á þessu ári ætlar hann ekki að gera neitt sem honum þykir leiðinlegt. Í samræmi við það var hann duglegur að taka af borðum, vaska upp og taka til hjá okkur fram að áramótum, en frá áramótum hefur hann ekki farið í sturtu, svarað í símann eða notað löng orð þegar hann talar.

Veðrið hjá okkur hefur verið með kaldara móti og menn hafa þurft að setja upp hanska þegar þeir hjóla í skólann eða fara í sólbað. Við ætlum hins vegar að halda á enn kaldari slóðir um helgina og ætlum að demba okkur til Lake Tahoe í tvo daga. Þar ku hitinn vera -12 um þessar mundir og hætta á kali ef ekki er varlega farið. Borghildur er svo hagsýn að hún tilkynnti mér strax að í tilefni ferðarinnar ætlaði hún að fata fjölskylduna algjörlega upp í North Face búð. Ég spurði hana hvort það væri virkilega praktískt að fata fjölskylduna upp fyrir 2 daga þegar allir ættu fínar úlpur heima á Íslandi. Þá horfði Borghildur góðlátlega á mig og lét eins og ég hefði bara pissað á mig. Strákar, þið þekkið þennan svip. Og hvar haldið þið að Borghildur sé einmitt núna? Jú, jú, í North Face. Ég reyni að stemma af heimilisbókhaldið á meðan.

Annars er það helst að frétta að Arnhildur hélt heim til Íslands fyrr í mánuðinum. Það var leiðinlegt að missa hana heim og söknuðirinn mikill á heimilinu. Við sjáum hana vonandi sem allra fyrst aftur.
VL.

Það voru fleiri en við sorgmæddir yfir heimflutningi Arnhildar. Veltan í Stanford Shopping Center hefur dregist töluvert saman síðan Arnhildur fór og afgreiðslustelpurnar í Abercrombie & Fisch voru hálf beygðar yfir því.

Yngri börnin reyndu að vinna úr sorginni við að missa Arnhildi með því að gerast klæðskiptingar. Draumur sérhvers föður.
Kallinn býr sig undir að taka á móti innbrotsþjófum. Takið eftir stæltum þjóhnöppunum. Þegar þið eruð búin að því skuluð þið horfa aðeins lengur á þá.
Arnhildur slær boltann upp í áhorfendastæði. Hún var seld til hafnaboltaliðs
á Íslandi eftir þetta högg.
Mamma var með múður og heimtaði að vera með hatt allan sólarhringinn. Þá ákváðum við að þetta væri orðið ágætt og settum hana á sölu. Hún seldist hins vegar ekki - kannski út af hattinum, en kannski vegna þess að við vildum fá of mikið fyrir hana, sbr. skiltið í bakgrunni. Finnst ykkur $25 of mikið fyrir pundið? Okkur fannst það gjafverð.
Gunni mágur yfirgaf loksins Seattle eftir að borgaryfirvöld þar á bæ buðust til að borga fyrir hann miðann heim til Íslands. Grímur (til vinstri) skutlaði Gunna út á flugvöll og kyssti hann bless.